Veiðistaðir

1. Dalsfoss

Veiðistaðurinn er rétt neðan við veiðihúsið og er fosshylur eins og nafnið ber með sér, að mestu umkringdur lágum hömrum. Í kverkinni framan við fossinn er laxastigi er byggður var 2001 til þess að bæta göngur fisks upp á efra svæði árinnar. Árleg veiði í fossinum fer að nokkru eftir aðstæðum og vatni. Fiskur liggur í dýpinu undir hvítfryssinu frá fossbeljandanum og í strengnum allt niður á brotið þar sem áin fellur úr hylnum. Fiskur liggur gjarnan undir klapparhorninu neðst á breiðunni og styggist auðveldlega ef gengið er fram á klöppina.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 1 3 4 12 11 11 6 7 1 2 4 5


2. Litli foss

Þar sem áin svelgist úr Dalsfossi tekur við næsti veiðistaður, sem er langur klapparstokkur, sem endar í djúpri breiðu. Í fossvelgnum efst liggur gjarnan fiskur framan við stóran stein sem ólgar á og myndar straumþrengingu, það á ekki síst við í litlu vatni. Eftir því sem vatn eykst færir laxinn sig niður eftir strengnum og getur því tekið um hann allan. Að öllu jöfnu er veiðistaðurinn gjöfulli í litlu vatni. Rétt er að veiða staðinn beggja vegna árinnar.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 1 3 1 8 8 7 7 19 13 8 8


3. Lygnihylur

Framan við klettana sem skipta Lygnahyl frá Litlafossi breiðir áin úr sér í fallegt ker sem rennur á klöpp með skessukötlum og þar liggur laxinn þegar að árvatnið er í kjör aðstæðum. Veiðiskilin eru oft ógreinileg á milli Lygnahyls og Litlafoss, því fiskurinn sakkar sér úr stokknum niður á brotin og í strenginn þar fyrir ofan, eftir því sem vatnshæð árinnar eykt. Staðurinn er kjörinn í miklu vatni og heldur fiski frá upphafi vertíðar og fram í lok veiðitímans. Helsti tökustaður er út af klapparhorninu vestan megin árinnar. Þegar vatnsstaða er óvenju há leggst lax og tekur við bakkann austan megin, niður á brotinu. Í miklu vatni, sérstaklega ef fiskur er í göngu fyrri hluta sumars myndast strengur út af eyri er skiptir ánni rétt neðan við flúðina sem markar veiðistaðinn. Í vatnavöxtum getur myndast þar góður veiðistaður sem nefnist Þvottastrengur, þegar lax flýr ólguna sem myndast neðan við Dalsfoss og í stokknum neðan við hann.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 1 54 19 16 34 24 24 5 1 18 11 7


4. Bænhúshylur

Neðan við túnið hjá veiðihúsinu rennur áin í löngum klapparstokki, sem má þekkja af símalínu sem strengd er á milli staura um miðjan hylinn. Undir línunni er einmitt tökustaður, en lax færist upp eða niður strenginn eftir vatnshæð og straumþunga. Það er eitt af einkennum Straumfjarðarár að í rigningartíð getur hún bætt við sig miklu vatni og því er fiskur sífellt að færa sig í breytilegri vatnshæð, ekki síst á veiðistöðum eins og þessum. Um miðjan hylinn marar langur klettur í kafi og í straumnum vestan við hann tekur laxinn á milli hamranna sem skipta hylnum frá breiðunni fyrir neðan. Þar liggur síðan laxinn þegar vatn vex og þá liggur hann og tekur fluguna alveg niður á brotin og enn neðar í strengjunum þar fyrir neðan sem myndast þegar áin flæðir. Bænhúshylur er að öllu jöfnu virkur upp úr mánaðarmótum júní/júlí og helst virkur fram í lok veiðitíma.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 24 41 17 30 30 12 22 29 24 38 22 26


5. Smáfossar

Veiðistaðurinn er í lágum klettaborgum þar sem áin rennur á milli móanna beggja vegna hennar, um tvöhundruð metrum neðan við Bænhúshylinn. Smáfossar eru klasi af veiðistöðum sem geta verið breytilegir eftir aðstæðum í vatni og veiðitíma. Tveir þeirra eru mest áberandi og gjöfulastir. Hyljirnir tveir eru grágrýtiskatlar sem myndast hafa í farvegi árinnar og eru einkennandi fyrir efri hluta Straumfjarðarár. Þeir halda ágætlega laxi í litlu vatni þar sem í þeim er nokkurt dýpi. Efri hylurinn liggur með vesturbakkanum og endar í lítilli breiðu sem er tökustaður. Neðan við hann breiðir áin úr sér í ker þar sem skiptist á ólga og lygna. Í lygna hluta kersins er nokkurt dýpi og laxinn tekur í straumskilunum við efri flúðirnar og niður á brotið þar sem á svelgist úr hylnum niður í þröngan breiðan ketil og enn aðrar smærri flúðir sem mynda langan breiðan streng meðfram klöppinni lágu, við bakkann, veiðihúsamegin. Í góðu vatni, er þar tökustaður, sérstaklega á fyrri hluta veiðitímans, því þá liggja gjarnan laxar í strengnum.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 9 3 9 8 18 9 12 17 10 13 5 6


6. Móhylur

Þegar gengið er niður frá Smáfossum kemur í ljós brot í ánni sem myndar lága fossa eða flúðir. Ofan við vestari flúðina er klapparstokkur þar sem lax í göngu getur leynst og dvalið eftir að líða tekur á veiðitímann. Dæmigerður hittingsstaður. Gefur fáeina laxa á hverju sumri, ekki síst í litlu vatni. Best er að veiða strenginn að vestanverðu.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 1 2 1 1 1


7. Svartibakki

Hér fellur áin litlu neðar um grjótþrengingar eða smáflúðir og breiðir síðan úr sér neðan þeirra. Út af klöppunum er myndarlegur steinn sem þrengir að staumnum. Neðan við hann og alla leið niður breiðuna er tökustaður laxa og ræður vatn hversu ofarlega laxinn tekur. Í miklu vatni tekur hann út frá steininum neðarlega á breiðunni og í verulega kröftugu veiðivatni verður til annar strengur nokkru neðar, rétt ofan við holtið þar sem áin beygir til vesturs. Svartibakki er í góðu vatni fallegur og gjöfull staður, en heldur illa fiski þegar vatnsstaða í ánni er lág.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 10 19 8 23 46 37 38 73 9 16 9 25


8. Nýja brú

Á þessum veiðistað þar sem þjóðvegurinn vestur á nes þverar ána er auðvelt að fylgjast með laxagengdinni og þegar eru komir laxar í brúarhylinn í upphafi vertíðar er ljóst að fiskur er genginn á fleiri staði. Þegar líður á sumarið geta legið í hylnum undir brúnni laxar í tugatali og þar veiðist lax alla vertíðina. En þeir taka illa í litlu vatni. Í slíkum skilyrðum eru meiri líkur á að hann taki fáeina metra ofan við eystri brúarstólpann. Í góðu vatni dreifir fiskurinn sér betur og leggst niður á breiðuna neðan brúarinnar, allt niður undir flúðirnar. Einnig getur lax legið í strengjunum sem myndast í miklu vatni ofan við brúareyrina og í strengjum þar enn ofar. Brúarhylurinn er veiddur beggja vegna allt allt eftir skilyrðum á hverjum tíma. Í góðu vatni er brúarhylurinn gjöfull staður.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 12 15 38 50 40 45 33 48 45 22 35 60


9. Rafstrengur

Undir háspennulínunni er liggur þvert yfir ána verður til veiðilegt fljót þegar vatn er í góðu meðallagi og enn frekar í miklu vatni, því þá sakkar sér hluti af löxunum þangað sem annars liggja í hnapp undir brúnni og þeir geta tekið hvar sem er í strengnum neðan við flúðirnar er skipta Rafstreng og brúarbreiðunni. Í litlu vatni heldur hann tæpast laxi og helst ekki fyrr en liðið er fram á miðja vertíð.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 1 23 7 13 10 13 10 6


10. Gamla brú (Gissurarvallafljót)

Hylurinn þar sem fiskurinn heldur sig er út af klapparhorninu sem skagar út í ána efst í strengnum og nær niður undir brú. Í honum liggur laxinn og nýtur skuggans af klöppinni. Fiskurinn færir sig neðar eftir því sem straumurinn eykst, eins og á við annarsstaðar í ánni. En hann tekur sjaldan undir brúnni eða neðan við hana. Það er helst í ógnarmiklu vatni og þá eins á brotunum í beygjunni nokkru neðan við brúarbreiðuna.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 4 12 12 13 40 21 3 11 1 16 17


11. Húshylur (Hylstapakvörn)

Einn fengsælasti veiðistaðurinn í ánni. Í meðalvatni tekur laxinn niður af grjótunum sem raðað hefur verið við bakkan til þrengingar, efst í strengnum. Í góðu vatni myndast fleiri strengir niður breiðuna og laxinn dreifist betur um hylinn og fer að taka út af klöppunum sem skaga út úr holtinu á bakkanumveiðihúsamegin. Í miklu vatni liggur laxinn mjög neðarlega.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 37 44 56 59 59 65 29 77 39 37 34 62


12. Litlibakki

Grunnir strengir og hylir nokkru fyrir neðan fyrsta vaðið sem farið er yfir. Þessir veiðistaðir geta verið breytilegir á milli ára, þar sem áin á það til að flytja möl í miklum vorleysingum og við það geta myndast nýjir strengir og holur sem halda fiski, ekki síst þegar líður á sumarið í rigningartíð. Helstu tökustaðir eru í árkvísl, undir móbarði við efsta vaðið og síðan aftur með landinu austanverðu þar sem áin hefur myndað langan holbakka. Þriðji tökustaðurinn er á snoturri breiðu sem markast af gulum stikum. Sammerkt eiga þessir staðir sem tilheyra þessu svæði að gott veiðivatn þarf að vera til staðar og aðeins liðið á sumarið.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 8 1 12 8 4 37 9 2 11 13


13. Miðmundarholtskvörn (Nónhylur)

Gamalfrægur staður sem gaf mikla veiði fyrr á tímum. Árlega tosast þaðan fáeinir nokkra fiskar, allt eftir því hvernig liggur í straumlaginu við holtið og hylurinn nái að losa úr sér möl sem á það til að safnast í veiðistaðinn og koma í veg fyrir að fiskur hafist þar við. Einstaklega skemmtileg breiða í réttum aðstæðum.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 2 28 2 7 3 3 18


14. Grænistrengur

Löng breiða í hvarfi á bak við lágt gróið holt á móts við bæinn Straumfjarðartungu. Kemur í ljós þegar farið er niður ána. Fiskur tekur helst neðan við grjótin efst í strengnum og aftur nokkru neðar, út af grjótum þar sem annar strengur tekur við. Síðsumarsstaður.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 2 1 1 16 19 7 6


15. Neðri Ármót

Þarna bætast árnar Fáskrúðarbakkaá og Grímsá við í vatnakerfi Straumfjarðarár. Rétt neðan við útfall þeirra er klöpp sem skagr út í ána og í strengnum þar niður af er helsti tökustaðurinn. Hinsvegar getur lax legið ofan við klöppina og einnig nokkuð langt niður eftir breiðunni, ekki síst þega líður á vertíðina, því nær staumurinn langt niður úr veiðistaðnum. Þennan stað þarf að veiða frá báðum bökkum árinnar, til að hann sé fullreyndur.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 5 19 32 28 20 29 28 15 8 15 7 10


16. Sjávarfoss

Fyrri hluta sumars er mikið líf í þessum veiðistað þar sem nánast hver einasti lax sem gengur í ána og veiðast ekki á svæðunum þar fyrir neðan, fer um fossinn. Best er að veiða staðinn af rauðamölshellu sem gengur inn undir fossinn, eða af eyrinni neðan við. Laxinn tekur í hvítfrisinu neðarlega og niður alla fossbreiðuna að broti. Þarna getur lax verið að taka á mjög grunnu vatni, en varast þarf að láta ekki skugga falla á hylinn þegar sólin skín úr vestri á eftirmiðdögum. Í miklu vatni verður til annar strengur utan við megin veiðistaðinn og þá er veitt af klöppunum sem mara í kafi austan við strenginn.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 18 31 38 62 82 66 118 80 119 94 54 73


17. Snasi

Niður með holtinu austan og neðan við Sjávarfoss lyggur löng breiða sem endar í nokkuð djúpum hyl neðst við holtsendann. Út frá klöppinni sem þar skagar út í hylinn er helsti tökustaðurinn í Snasa. En auk þess geta fiskar tekið þar sem þeir leynast upp eftir strengnum við grjótin.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 3 1 1 31 23 8 98 4 2 23 86


18. Efri Nethamar

Í strengnum undir hamrinum liggur laxinn og árlega veiðast þar nokkrir laxar. Laxarnir liggja gjarnan við grjótin sem eru á kafi í miðjum strengnum. Best er að veiða strenginn frá bakkanum unir hamrinum þar sem að þá endar flugan rennslið inn við bakkann þar sem dýpið er mest.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 5 5 4 2 3 18


19. Neðri Nethamar

Langur strengur sem rennur með lágu mýrarholti. Þarna gætir sjávarfalla í stórstreymisflóði. Nokkuð er af bleikju í strengum stuttu eftir að fer að falla aftur út og enn frekar neðst við klappirnar þar sem hylurinn er dýpstur. Þegar lax er að ganga er ágæt laxavon víða um strenginn. En það ræðst af því hvernig staðurinn mótast um veturinn. Þarna rennur áin á nokkuð skriðulli möl sem á það til að fletja út staðinn og þá stoppar laxinn þar síður.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 4 11 59 24 9 3 3 3


20. Sökkur

Í beygjunni neðan við eyrina hjá Nethamrinum neðri rennur áin við holtið sem nær niður í ósasvæði árinnar, þar getur safnast upp bleikja og einn og enn lax veiðist þar. Þó ekki árlega. Fyrst og fremst silungastaður sem gaman er að kasta í. Í flóði hverfur veiðistaðurinn og keppur ekki í ljós aftur fyrr en að fellur út á ný. Á meðan flæðir er veiðistaðurinn ónýtur.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 1 4 32 18


21. Hýrupollur

Djúpur stuttur hylur rétt ofan við veiðihúsið, þar sem áin fellur um klapparþrengingu. Þarna er straumiða mikil og erfitt að ná flugunni niður. Í dýpinu safnast laxinn fyrir og tekur fluguna þegar hún dansar í fryssinu. Í litlu vatni liggur lax í strengnum ofan við þrenginguna.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 10 3 1 14 11 15 11 20 11 17 4 9


22. Olnbogi

Yfirlætislaus veiðistaður en gefur helst lax í litlu vatni því að hylurinn heldur vel vatni. Í miklu vatni fer að ólga í hylnum og þá dreifir laxinn sér neðar og tekur í strengjunum sem renna um klapparskálarnar neðan við staðinn, allt niður undir Hýrupoll.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 1 1 1 6 1 5 1 6 4 4 8


23. Grænibakki

Lax liggur gjarnan við klöppina efst í strengnum sem skiptir ánni og síðan alla leið niður á brotin. Þarna veiðist lax upp úr júlí og síðan út veiðitímann ef vatn er í góðu meðallagi.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 9 1 4 9 12 3 19 1 2 11 4


24. Kvíslaroddi (Efri Ármót)

Hér liggur laxinn í djúpu og þröngu fosskeri og er erfiður viðfangs. Áin fellur síðan niður flúð og myndar stutta breiðu en þynnist síðan út í grunna strengi. Það er helst að fá lax í strengnum neðan við þar sem Kaldakvísl sameinast Straumfjarðará.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 1 1 5 8 9 1 4 7 5 7 4 3


25. Bræðrastrengur

Þröngur og djúpur klapparstokkur, nokkuð vandveiddur. Best er að kasta á hann að vestanverðu, í skjóli af klettinum. Þarna safnast oft saman nokkuð af laxi þegar líður á sumarið og fiskur er genginn í nokkru magni upp í efri veiðistaði árinnar. Í miklu vatni sakkar laxinn sér niður úr hylnum og leggst í strenginn rétt neðan við brotið.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 2 4 5 7 15 23 16 36 8 5 15 7


26. Gíslakvörn

Einn gjöfulasti veiðistaðurinn í efri hluta árinnar. Eins og víðar um ána þarf að gæta að sér því auðvelt er að styggja laxinn í hyljunum. Best er að koma ofan frá fossinum og niður í gljúfið. Fiskur getur legið og tekið í strengjunum þar sem gljúfrið er þrengst og alveg niður á brotin þar sem breiðan endar. í litlu vatni er betra að veiðastrenginn vestan frá.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 14 16 33 42 61 40 27 36 3 15 20 5


27. Rjúkandi

Efsti laxgengi veiðistaður árinnar. Hér safnast lax saman í kerinu undir fossinum. Best er að kasta á hann uppstreymis og draga línuna hratt að sér þegar hún berst með straumnum yfir fiskinn sem þarna liggur. Með þeirri aðferð er minni hætta á að styggja laxinn. Í góðu vatni liggur lax í strengnum rétt fyrir neðan fossinn.

2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2014 2015
Veiði 33 11 22 18 41 15 40 34 19 29 27 18