Áin


Straumfjarðará er gjöful laxveiðiá sem staðsett er í Eyja og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi og liggur þjóðvegurinn ( 54 Ólafsvíkurvegur ) yfir ána, rétt vestan við þjónustumiðstöðina við Vegamót.
Áin á upptök sín í fjöllunum að norðan á Nesinu og dregur vatn í hana úr Baulárvallarvatni og uppsprettum Köldukvíslar í Kerlingarskarði, auk þess sem fjöldi smárra lækja og áa renna inn í Straumfjarðará, eftir því sem neðar dregur að ósi. Í neðri hluta árinnar bætist nokkuð við af vatni, þar sem árnar Fáskrúð, Grímsá og Laxá í Miklaholtshreppi renna saman við Straumfjarðará, en þessar ár eiga upptök sín í Ljósufjöllum. Í góðri rigningartíð getur Straumfjarðará vaxið á augabragði þegar dregur í hana úr fjöllunum umhverfis.
Laxgengur hluti árinnar er um 12 km og er það greið leið fyrir laxinn að ganga frá ósi og upp í efstu veiðistaði. Það er víðsýni mikið við ána. Fjallahringurinn við Faxaflóa, vestan frá Snæfellsjökli og allt suður á Reykjanes er sýnilegur veiðimönnum í góðu skyggni.
Mikið varp anda og fjölmargra vaðfuglategunda er á svæðinu sem skapa umhverfinu einstakt yfirbragð á varptímanum. Í Straumfjarðará er veitt með fjórum stöngum. Einungis er veitt með flugu. Við efri hluta árinnar er veiðihús þar sem full þjónusta er í boði á veiðitímanum og er veiðimönnum skylt að nýta þjónustuna.

Veiðiskipulag

Veiðitímabilið í Straumfjarðará hefst 20. júní og lýkur 19. september ár hvert. Auðvelt er að komast til flestra veiðistaðanna á fjórhjóladrifnum bílum (jeppum og jepplingum) og eru veiðistaðir í þægilegu göngufæri frá slóða. Þar sem aðgengi við veiðistaðina er gott hentar áin vel þeim sem vilja ekki eyða miklum tíma í langar keyrslur á milli veiðistaða og erfiðar göngur. Straumfjarðará er einstaklega hentug fyrir einhendustangir, en hún er viðkvæm á köflum og getur krafist nokkurrar kunnáttu af veiðimönnum.
Eitt af einkennum Straumfjarðarár er að laxinn þar er mikið fyrir að sýna sig í vatnsskorpunni og það gerir veiðina enn meira spennandi.
Uppistaðan í veiðinni er eins árs lax sem gjarnan er í kringum 2,5 til 3 kg. Árlega veiðist nokkuð af tveggja ára laxi sem er á bilinu 5 – 8 kg og fáeinir 10 kg laxar sýna sig á veiðitímanum.
Veiðimönnum er skylt að sleppa aftur öllum fiski sem er yfir 70 cm að lengd og leyfilegt er að hirða 1 smálax á hverri vakt. Þar sem eingöngu er veitt með fjórum stöngum hefur sá háttur verið hafður að stangirnar fjórar eru seldar saman, en áin hentar vel smærri hópum sem geta með því ráðið nokkru um skiptingar, sem gerir alla viðveru við ána afslappaðri.

Veiðistaðir

Straumfjarðará er skipt í fjögur veiðisvæði með 27 nefnda veiðistaði og rennur um fjölbreytt landslag. Veiðinni er ágætlega skipt um alla ána frá fossinum Rjúkanda, sem er efsti laxagengi staður og allt niður undir veiðistaðinn Sökkur sem liggur niður undir ósasvæði árinnar, en þar kennir sjávarfalla þegar stórstreymt er og reyndar nær flóðið upp í Neðri – Nethamar sem er steinsnar ofar í ánni.
Í efri hluta árinnar rennur hún um lág gljúfur og klapparstokka sem mynda hylji og breiður. Þegar neðar dregur rennur áin um eyrar sem auðvelt er að ferðast um. Þar rennur hún um í fallegum breiðum.
Þar sem áin er dragá getur hún verið mjög breytileg eftir vatnsmagni hverju sinni og veiðistöðum fjölgar í rigningartíð og vatnavöxtum.

Nánari lýsingar á veiðistöðunum eru að finna hér.